Eddie Howe knattspyrnustjóri Newcastle krækti í fimmta leikmanninn í þessum mánuði núna á ellefta tímanum í kvöld þegar varnarmaðurinn Dan Burn gekk til liðs við félagið frá Brighton fyrir 13 milljónir punda.
Burn, sem er 29 ára gamall og ríflega tveir metrar á hæð, hefur verið í stóru hlutverki í vörn Brighton en hann er einmitt uppalinn hjá Newcaastle og fór þaðan í utandeildafótbolta til að byrja með. Síðan hefur hann átt stigvaxandi gengi að fagna með Fulham, Wigan og síðast Brighton.
Newcastle hefur einnig keypt þá Kieran Trippier frá Atlético Madrid, Chris Wood frá Burnley og Bruno Guimaraes frá Lyon, auk þess sem Matt Targett kom sem lánsmaður frá Aston Villa í dag.
Félagið eyddi 90 milljónum punda í leikmennina fjóra sem það hefur keypt og nú á eftir að skýrast hvort þetta dugi til að bjarga ríkasta félagi heims frá falli en Newcastle er í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar.