Forráðamenn franska knattspyrnufélagsins Reims hafa samþykkt tilboð enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle í Hugo Ekitike.
Það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Ekitike, sem er 19 ára gamall, er franskur framherji en hann hefur skorað átta mörk í ellefu byrjunarliðsleikjum í frönsku 1. deildinni á tímabilinu.
Samkvæmt Sky Sports þarf Newcastle að borga í kringum 20 til 25 milljónir punda fyrir franska framherjann.
Framherjinn verður fjórði leikmaðurinn sem semur við Newcastle í þessum félagaskiptaglugga en félagið hefur nú þegar gengið frá kaupunum á þeim Bruno Guimaraes, Chris Wood og Kieran Trippier.
Þá hefur Newcastle einnig verið orðað við leikmenn á borð við Dan Burn, Jesse Lingard, Matt Targett, Eddie Nketiah og Dean Henderson á þessum lokadegi janúargluggans.