Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Arsenal eru sagðir undrandi yfir þeim fréttum að fyrirliði liðsins, Pierre-Emerick Aubameyang, sé mættur til Barcelona.
Það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Í gær bárust fréttir af því að Aubameyang, sem er 32 ára gamall, væri að ganga til liðs við spænska stórliðið að láni frá Arsenal.
Barcelona þarf hins vegar að selja leikmenn til þess að geta samið við Aubameyang en Ousmane Dembélé, sóknarmaður Barcelona, er sagður nálægt því að ganga til liðs við París SG í Frakklandi.
Arsenal og Barcelona hafa ekki náð samkomulagi um það hversu háa prósentu spænska liðið mun borga af launum framherjans en Aubameyang hefur þegar samið við Börsunga um kaup og kjör.