Liverpool og Fulham féllu á tíma

Fabio Carvalho.
Fabio Carvalho. Ljósmynd/Fulham FC

Ekkert varð af því að knattspyrnumaðurinn efnilegi Fabio Carvalho yrði seldur frá Fulham til Liverpool í kvöld eins og til stóð.

Samningaviðræður félaganna drógust fram eftir kvöldi og að lokum urðu þau of sein til að koma félagaskiptapappírum í hendur enska knattspyrnusambandsins fyrir klukkan 23 þegar félagaskiptaglugganum í úrvalsdeildinni var lokað.

Talið er þó líklegt að Liverpool fái Carvalho í sumar en sennilegast er að liðið hefði hvort eð er lánað hann aftur til Fulham út þetta tímabil. Það flækir þó stöðuna fyrir Fulham að nú verður hann orðinn samningslaus í sumar og getur farið til Liverpool án greiðslu að tímabilinu loknu.

Carvalho er 19 ára gamall, portúgalskur að uppruna en hefur verið í röðum Fulham í sjö ár og leikið með yngri landsliðum Englands. Hann er kantmaður eða sókndjarfur miðjumaður og hefur skorað sjö mörk í sextán leikjum með Fulham í B-deildinni í vetur, og skoraði eitt mark í fjórum leikjum liðsins í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert