Tottenham krækir í tvo leikmenn Juventus

Rodrigo Bentancur (nr. 30) er genginn í raðir Tottenham Hotspur.
Rodrigo Bentancur (nr. 30) er genginn í raðir Tottenham Hotspur. AFP

Ítalska knattspyrnufélagið Juventus hefur staðfest brottför tveggja leikmanna til enska félagsins Tottenham Hotspur. Þetta eru þeir Rodrigo Bentancur, sem er keyptur til Tottenham, og Dejan Kulusevski, sem kemur á láni út næsta tímabil.

Bentantur er 24 ára gamall miðjumaður frá Úrúgvæ sem er keyptur á um 20 milljónir evra. Verðmiðinn gæti hækkað með árangurstengdum greiðslum og semur hann til sumarsins 2026.

Kulusevski er 21 árs gamall vængmaður og sóknartengiliður frá Svíþjóð. Að loknum 18 mánaða lánssamningi hans við Tottenham hefur félagið forkaupsrétt á Kulusevski.

Juventus hefur kvatt báða leikmenn á samfélagsmiðlum sínum og Tottenham hefur sömuleiðis tilkynnt um komu þeirra beggja til Lundúnafélagsins.

Dejan Kulusevski er einnig kominn til Tottenham.
Dejan Kulusevski er einnig kominn til Tottenham. AFP

Juventus er þá búið að festa kaup á svissneska miðjumanninum Denis Zakaria, sem kemur frá þýska félaginu Borussia Mönchengladbach á aðeins fimm milljónir evra auk um þriggja milljóna evra í bónusgreiðslur.

Ástæðan fyrir lágum verðmiðanum er sá að samningur Zakaria við Mönchengladbach var að renna út næstkomandi sumar.

Juventus er mjög duglegt á lokadegi félagaskiptagluggans og er einnig búið að kaupa varnarmanninn Federico Gatti frá B-deildarfélaginu Frosinone og velski miðjumaðurinn Aaron Ramsey er á leið til Skotlandsmeistara Rangers á láni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert