Ásakanirnar hrannast upp á Greenwood

Mason Greenwood er í slæmum málum.
Mason Greenwood er í slæmum málum. AFP

Mason Greenwood, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester Untied, verður áfram í gæsluvarðhaldi næstu daga.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Nýjar ásakanir í garð leikmannsins bárust lögreglunni í Manchester í dag en hann er sakaður um bæði líkamsárás og líflátshótanir.

Greenwood, sem er tvítugur, var handtekinn á sunnudaginn vegna gruns um heimilisofbeldi og nauðgun.

Lögreglan í Manchester áskilur sér rétt til þess að halda leikmanninum í 96 klukkustundir á meðan mál hans eru til rannsóknar.

Eftir að fréttir bárust af því að Greenwood hefði verið handtekinn á sunnudaginn sendi Manchester United frá sér yfirlýsingu þar sem kom meðal annars fram að leikmaðurinn væri kominn í ótímabundið bann hjá félaginu.

Þá hefur enska félagið fjarlægt allan varning merktan honum úr verslunum sínum og fjöldi liðsfélaga hans eru hættir að fylgja honum á samfélagsmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert