Keyptu fyrir hærri upphæðir en stærstu liðin samanlagt

Bruno Guimaraes var keyptur á 40 milljónir punda.
Bruno Guimaraes var keyptur á 40 milljónir punda. AFP

Enska knattspyrnufélagið Newcastle United eyddi félaga mest í janúarglugganum. Alls festi félagið kaup á fjórum leikmönnum fyrir 90 milljónir punda samanlagt.

Kieran Trippier, Chris Wood, Bruno Guimaraes og Dan Burn voru allir keyptir í janúar auk þess sem Matt Targett kom á láni. Fimmenningarnir munu vafalaust styrkja Newcastle, sem á í harðri fallbaráttu, mikið það sem eftir lifir tímabils.

Í október á síðasta ári keyptu Sádi-arabískir fjárfestar Newcastle. Um leið varð félagið langríkasta knattspyrnufélag heims og 90 milljónir punda því ekki stórvægilegt fyrir nýju eigendurna.

Newcastle eyddi raunar meira en sex stærstu félög ensku úrvalsdeildinnar, oft kölluð „stóru sex“, til samans.

Liverpool keypti Luis Díaz á 37,5 milljónir punda, Tottenham Hotspur keypti Rodrigo Bentancur á 16 milljónir punda og greiddi átta milljónir punda fyrir 18 mánaða lán á Dejan Kulusevski, Manchester City keypti Julian Álvarez á 14 milljónir punda, Arsenal keypti táninginn Lino Sousa á óuppgefna upphæð og Auston Trusty á eina og hálfa milljón punda, Chelsea keypti einungis táninginn Dylan Williams fyrir óuppgefna upphæð og Manchester United keypti ekki einn einasta leikmann.

Samtals gera það um 77 milljónir punda auk einhverja hundruða þúsunda punda að auki sem voru greidd fyrir ofangreinda táninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert