Tveir varnarmenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool voru í gær lánaðir til B-deildarfélaganna Fulham og Bournemouth, sem eru bæði í harðri baráttu um að komast upp í ensku úrvalsdeildina.
Um er að ræða velska bakvörðinn Neco Williams, sem fór til toppliðs Fulham, og enska miðvörðinn Nat Phillips, sem fór til Bournemouth.
Williams er tvítugur og hefur tekið þátt í átta leikjum með Liverpool í öllum keppnum á tímabilinu á meðan Phillips, sem er 24 ára guðsonur Guðna Bergssonar, hefur aðeins tekið þátt í þremur leikjum í öllum keppnum.
Bournemouth er um þessar mundir í þriðja sæti B-deildarinnar, einu stigi á eftir Blackburn Rovers í öðru sætinu og á auk þess leik til góða.
Bournemouth styrkti liðið talsvert í gær fyrir átökin á síðari hluta tímabilsins. Vængmaðurinn Todd Cantwell kom á láni frá Norwich City og markvörðurinn Freddie Woodman á láni frá Newcastle United.
Þá keypti liðið velska sóknarmanninn Kieffer Moore frá Cardiff City og vængmanninn Siriki Dembélé frá Peterborough United.