Stærri félög þorðu ekki að fá Eriksen

Christian Eriksen er kominn aftur í ensku úrvalsdeildina.
Christian Eriksen er kominn aftur í ensku úrvalsdeildina. AFP

Thomas Frank, danskur knattspyrnustjóri enska félagsins Brentford, er hæstánægður með að hafa fengið landa sinn Christian Eriksen til liðs við félagið í janúarglugganum og telur að hann gæti reynst bestu kaupin í sögu þess.

Eriksen kom á frjálsri sölu frá Ítalíumeisturum Inter eftir að ljóst varð að hann mætti ekki spila í ítölsku A-deildinni í kjölfar þess að bjargráður var græddur í hann.

Þess var þörf eftir að Eriksen fór í hjartastopp í leik með Danmörku á EM síðasta sumar en samkvæmt reglum á Ítalíu mega leikmenn sem eru með bjargráð græddan í sig ekki spila.

Hefur hann ekkert spilað síðan í leik Danmerkur gegn Finnlandi og sagði Frank á blaðamannafundi í dag að enn væru einhverjar vikur í að Eriksen gæti spilað að nýju þar sem hann þyrfti að koma sér í betra form.

„Við náðum að klára þetta. Hann gæti mögulega verið bestu kaup í sögu félagsins. Það verður ótrúlegur dagur þegar hann stígur aftur á knattspyrnuvöllinn. Við sáum öll hvað kom fyrir hann.

Það var klikkað. Að sjá hann aftur á vellinum bráðlega verður góður dagur,“ sagði Frank, sem er smitaður af kórónuveirunni og getur því ekki stýrt Brentford gegn Everton í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar um helgina.

Kraftaverk að hann vilji spila aftur

Frank sagðist mjög spenntur fyrir komu Eriksens og að það sama ætti við um leikmenn Brentford.

„Fyrsta tilfinning mín er spenna. Hann er toppleikmaður sem býr yfir gífurlegri reynslu. Leikmennirnir eru yfir sig kátir, himinlifandi að við náðum að krækja í toppleikmann.

Ég er glaður með að hann ákvað að koma til okkar. Fyrir utan það að vera toppleikmaður og ofurstjarna er hann mjög hógvær og jarðbundinn, sem er mikill kostur.“

„Vegna þess sem kom fyrir voru sum stærri félaganna ekki reiðubúin að grípa tækifærið að semja við hann.

Það er stórkostlegt að hann vilji spila fótbolta á ný. Það er smá kraftaverk að hann vilji spila fótbolta á ný,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert