Enska knattspyrnufélagið Newcastle United fór mikinn á leikmannamarkaðnum í janúar og bætti við sig fimm leikmönnum. Í uppfærðum leikmannahópi liðsins fyrir síðari hluta ensku úrvalsdeildarinnar hafa þrír aðalliðsleikmenn því verið fjarlægðir úr honum.
Koma þurfti Kieran Trippier, Chris Wood, Bruno Guimaraes, Matt Targett og Dan Burn fyrir í 25-manna leikmannahópi Newcastle.
Það þýðir að miðjumaðurinn Isaac Hayden, sem meiddist alvarlega á hnéi í desember síðastliðnum og hefði því ekki getað spilað meira á tímabilinu, hefur verið tekinn úr hópnum. Hann var búinn að spila 14 leiki í úrvalsdeildinni hingað til.
Einnig voru varnarmennirnir Ciaran Clark, sem hefur leikið 13 leiki í deildinni, og Jamal Lewis, sem hefur leikið fimm deildarleiki á tímabilinu, teknir úr hópnum.
Ekkert amar að þeim tveimur síðarnefndu og hlutu þeir því einfaldlega ekki náð fyrir augum Eddie Howe knattspyrnustjóra.