Var meinaður aðgangur að búningsklefa United

Bastian Schweinsteiger lék 35 leiki fyrir Manchester United þar sem …
Bastian Schweinsteiger lék 35 leiki fyrir Manchester United þar sem hann skoraði tvö mörk. AFP

Bastian Schweinsteiger, fyrrverandi miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, ræddi tíma sinn hjá félaginu við hlapvarp félagsins á dögunum, Manchester United-hlaðvarpið.

Þýski miðjumaðurinn, sem er 37 ára gamall, gekk til liðs við enska félagið frá Bayern München árið 2015 þegar Louis van Gaal stýrði liðinu.

Van Gaal var svo rekinn árið 2016 og José Mourinho var ráðinn í hans stað en 1. ágúst 2016 kom upp atvik milli hans og Mourinho sem varð til þess að hann yfirgaf félagið ári síðar.

„Ég snéri aftur til félagsins á afmælisdeginum mínum 1. ágúst eftir Evrópumótið í Frakklandi og ætlaði að skipta um föt inn í búningsklefanum,“ sagði Schweinsteiger.

„Mér var þá tjáð að ég mætti ekki fara inn í klefa og að ég ætti að æfa með varaliði félagsins. Ég hafði ekki hugmynd um hvað hafði gerst og ég var sár út í félagið. Ég ræddi þetta við Mourinho og ég áttaði mig aldrei á útskýringum hans.

Ég hafði meiðst tímabilið áður og ég var meðhöndlaður af sjúkraliði United. Ég meiddist aftur skömmu síðar og bað þá Van Gaal, sem þá var stjóri United, um leyfi til þess að fara í endurhæfingu til Þýskalands þar sem við vorum að undirbúa okkur undir EM.

Það var ekkert mál en þegar ég snéri til baka þá var ég sakaður um að hafa mér ekki eins og sannur atvinnumaður fyrir það eitt að fara aftur til Þýskalands. Mourinho bað mig að endingu afsökunar á þessu en ég hafði þá einhvernvegin misst áhugann á því að spila fyrir félagið eftir meðferðina sem ég fékk,“ sagði Schweinsteiger meðal annars.

Þjóðverjinn gekk til liðs við Chicago Fire í bandarísku MLS-deildina í mars 2017 og lagði skóna á hilluna í október 2019eftir að samningur hans í Bandaríkjunum rann út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert