City og Liverpool vilja sóknarmann Arsenal

Bukayo Saka og Virgil van Dijk eigast við í leik …
Bukayo Saka og Virgil van Dijk eigast við í leik Liverpool og Arsenal í janúar. AFP

Bukayo Saka, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er eftirsóttur af bæði Manchester City og Liverpool, toppliðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Það er ESPN sem greinir frá þessu. Saka, sem er einungis tvítugur, hefur áður verið orðaður við Liverpool á þessu tímabili en hann er uppalinn hjá Arsenal.

Hann hefur byrjað 19 leiki í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili þar sem hann hefur skorað sex mörk og lagt upp önnur fjögur fyrir liðsfélaga sína.

Þrátt fyrir ungan aldur á hann að baki 114 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 18 mörk og lagt upp önnur 25.

Hann er samningsbundinn Arsenal til sumarsins 2024 en hann er sagður vera með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa Arsenal ef félag sem leikur í Meistaradeildinni leggur fram tilboð í hann.

Saka á að baki 14 A-landsleiki fyrir England þar sem hann hefur skorað fjögur mörk en hann kostar í kringum 70 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert