Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Everton, hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.
Miðjumaðurinn, sem er 32 ára gamall, er ekki í leikmannahóp félagsins sem uppfærður var í gær fyrir seinni hluta tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi hefur ekkert komið við sögu það sem af er tímabili eftir að hann var handtekinn af lögreglunni í Manchester í júlí á síðasta ári, grunaður um brot gegn ólögráða einstaklingi.
Hann hefur verið laus gegn tryggingu síðan og hefur hún var framlengd nokkrum sinnum, síðast hinn 20. janúar þegar hún var framlengd til 20. apríl.
Gylfi hefur ekki æft með liði Everton á meðan mál hans er til rannsóknar en hann hefur ekki verið nafngreindur í breskum fjölmiðlum af lagalegum ástæðum.
Hvorki Gylfi, Everton né lögreglan í Manchester hafa viljað tjá sig um rannsókn málsins en samningur leikmannsins rennur út næsta sumar og er ekkert sem bendir til þess að hann verði áfram í herbúðum félagsins á næstu leiktíð.