„Ég er ótrúlega vonsvikinn,“ sagði Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, í samtali við BBC eftir að liði féll úr leik gegn B-deildarliði Middlesbrough í 4. umferð enska bikarsins í fótbolta í kvöld. Úrslitin réðust í vítakeppni.
„Við hefðum átt að drepa leikinn í fyrri hálfleik. Við skutum í slá og í stöng, klikkuðum á víti og fleiri góðum færum. Við hefðum átt að vera tveimur eða þremur mörkum yfir.
Við fengum svo á okkur mark sem ég skil ekki af hverju stóð. Hann stýrði boltanum með hendinni. Um leið og þeir skoruðu var ég viss um að markið fengi ekki að standa,“ bætti hann við.
Hinn 19 ára gamli Anthony Elanga var sá eini sem skoraði ekki í vítakeppninni en hann skaut yfir úr sinni spyrnu. „Það geta allir ímyndað sér hvernig honum líður. Hann er í rusli,“ sagði Þjóðverjinn.