B-deildarlið Middlesbrough gerði sér lítið fyrir og sló Manchester United úr leik úr enska bikarnum er liðin mættust í 4. umferðinni á Old Trafford í kvöld. Úrslitin réðust í vítakeppni.
Manchester United var mikið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Cristiano Ronaldo fékk ákjósanlegt færi til að skora fyrsta markið á 20. mínútu en hann skaut framhjá úr vítaspyrnu.
Fimm mínútum síðar skoraði Jadon Sancho hinsvegar fyrsta markið og var staðan í hálfleik 1:0, þrátt fyrir að United hafi fengið fjölmörg færi til að skora fleiri mörk.
Það kom í bakið á heimamönnum því Matt Crooks jafnaði á 64. mínútu eftir sendingu frá Duncan Watmore. Leikmenn United voru ósáttir við að markið hafi staðið því Watmore lagði boltann fyrir sig með hendinni. Eftir skoðun í VAR fékk markið hinsvegar að standa.
Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma né framlengingu og réðust úrslitin því í vítakeppni. Þar skoraði Middlesbrough úr öllum átta spyrnum sínum en hinn 19 ára gamli Anthony Elanga skaut yfir úr sinni spyrnu og gestirnir fögnuðu því vel.