Stjörnurnar gætu snúið aftur í næstu viku

Mohamed Salah og Sadio Mané eru lykilmenn í liði Liverpool.
Mohamed Salah og Sadio Mané eru lykilmenn í liði Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, vonast til þess að þeir Mohamed Salah og Sadio Mané snúi aftur til félagsins í næstu viku en þeir eru nú staddir á Afríkumótinu í Kamerún þar sem þeir leika til úrslita á sunnudaginn.

Mané er lykilmaður í senegalska landsliðinu sem lagði Búrkína Fasó í undanúrslitum á miðvikudaginn. Þá er Salah fyrirliði Egyptalands en liðið vann Kamerún í vítaspyrnukeppni í hinu undanúrslitaeinvíginu í gær.

„Ég vonast til þess að þeir verði tilbúnir og klárir í slaginn gegn Leicester,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í morgun en Liverpool fær Leicester í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni á Anfield á fimmtudaginn kemur.

„Þeir eru í ágætis leikformi eftir marga leiki á stuttum tíma en við þurfum að meta stöðuna á þeim þegar þeir snúa aftur í næstu viku. 

Vonandi verða þeir báðir tilbúnir í slaginn með okkur sem allra fyrst,“ bætti þýski stjórinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert