Úrvalsdeildarliðin Chelsea og West Ham lentu í miklum vandræðum þegar þau mættu liðum úr neðri deildunum í 4. umferð enska bikarsins í fótbolta í dag. Þau sluppu þó með skrekkinn og komust áfram eftir sigra í framlengingu.
Chelsea mætti Plymouth úr C-deildinni á heimavelli og gestirnir byrjuðu með látum því Macaulay Gillesphey skoraði fyrsta markið strax á áttundu mínútu. César Azpilicueta jafnaði á 41. mínútu og var staðan í hálfleik 1:1. Hvorugu liðinu tókst að skora í seinni hálfleik og því varð að framlengja.
Marcos Alonso kom Chelsea yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks í framlengingunni en Plymouth hafði ekki sungið sitt síðasta því liðið fékk vítaspyrnu á 118. mínútu. Ryan Hardie fór á punktinn en Kepa Arrizabalaga varði og Chelsea komst naumlega áfram.
Dramatíkin var ekki síðri er F-deildarlið Kidderminster Harriers tók á móti West Ham á heimavelli. Alex Penny kom Kidderminster yfir á 19. mínútu og stefndi allt í ótrúlegan sigur utandeildarliðsins.
Declan Rice jafnaði hinsvegar í uppbótartíma og því var að framlengja. Í framlengingunni skoraði Jarrod Bowen sigurmarkið í uppbótartíma og úrvalsdeildarliðið slapp með skrekkinn.