Jón Daði Böðvarsson og samherjar hans hjá Bolton neituðu að játa sig sigraða er liði heimsótti Morecambe í ensku C-deildinni í fótbolta í dag. Urðu lokatölur 1:1.
Selfyssingurinn byrjaði á varamannabekk Bolton en lék seinni hálfleikinn, sem var æsilegur, en staðan í hálfleik var markalaus.
Morecambe fékk víti á 70. mínútu og Ricardo Santos fékk beint rautt spjald. James Trafford varði vítið frá Cole Stockton en Stockton bætti upp fyrir það er hann skoraði fyrsta markið þremur mínútum síðar.
Leikurinn var stöðvaður þegar skammt var eftir vegna kynþáttaníðs hjá stuðningsmönnum Morecambe í garð leikmanna Bolton og voru því tæpar 20 mínútur í uppbótartíma.
Bolton nýtti sér það því Amadou Bakayoko skoraði jöfnunarmarkið á 14. mínútu uppbótartímans og þar við sat.
Bolton, sem hefur leikið fimm leiki í röð án taps, er í 10. sæti með 39 stig. Morecambe er í 21. sæti með 29 stig, einu stigi frá öruggu sæti í deildinni. Jökull Andrésson lék með Morecambe fyrri hluta tímabilsins.