Táningur United varð fyrir kynþáttaníði

Cristiano Ronaldo huggar Anthony Elanga í leikslok.
Cristiano Ronaldo huggar Anthony Elanga í leikslok. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Anthony Elanga varð fyrir kynþáttaníði eftir leik Manchester United og Middlesbrough í enska bikarnum í gærkvöldi.

Úrslit leiksins réðust í vítakeppni og brenndi Elanga af síðustu spyrnunni með þeim afleiðingum að United féll úr leik. Sóknarmaðurinn er aðeins 19 ára gamall. 

Níðið átti sér stað á Instagram-reikningi leikmannsins. Samkvæmt forsvarsmanni Meta, sem á Instagram, hefur miðillinn fjarlægt þó nokkrar athugasemdir þar sem kynþáttaníð átti sér stað.

Elanga er alls ekki fyrsti leikmaðurinn sem verður fyrir kynþáttaníði eftir að hafa mistekist að skora úr vítaspyrnu. Bukayo Saka, Jadon Sancho og Marcus Rashford urðu t.a.m. allir fyrir kynþáttaníði er þeim mistókst að skora fyrir England gegn Ítalíu í úrslitaleik EM síðasta sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert