Ungstirnið skoraði í endurkomu sinni

Harvey Elliott (t.v.) fagnar marki sínu í dag með Virgil …
Harvey Elliott (t.v.) fagnar marki sínu í dag með Virgil van Dijk AFP

Liverpool vann 3:1 sigur á Cardiff í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í dag. Hápunktur leiksins var þegar varamaðurinn Harvey Elliott skoraði í sínum fyrsta leik eftir löng og erfið meiðsli.

Þrátt fyrir að heimamenn hafi verið margfalt meira með boltann og verið líklegri aðilinn í fyrri hálfleiknum voru gestirnir væntanlega mjög sáttir með sína frammistöðu. Liverpool skapaði fá færi og gerði varnarlína Cardiff mjög vel í að halda framherjum þeirra í skefjum. Besta færi hálfleiksins kom strax á fjórðu mínútu en þá fékk Portúgalinn Diogo Jota algjört dauðafæri. Hann fór þá illa með varnarmenn Cardiff og komst einn gegn Dillon Phillips en sá síðarnefndi varði glæsilega frá honum. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu að beita skyndisóknum en frekar fátt var um tækifæri til þess þar sem þeir voru yfirleitt fáliðaðir þegar yfir miðju var komið. Hvorugt liðið náði að skora í fyrri hálfleiknum og staðan því markalaus.

Það tók heimamenn ekki nema átta mínútur í seinni hálfleik að komast yfir. Trent Alexander-Arnold tók þá aukaspyrnu frá hægri, beint á kollinn á Diogo Jota sem skoraði með glæsilegum skalla alveg út við stöng. Þegar tæplega klukkutími var liðinn af leiknum komu svo bæði Harvey Elliott og Luis Díaz inn á sem varamenn en þeir áttu báðir eftir að setja mark sitt á leikinn. Um 10 mínútum síðar var hægri bakvörður Cardiff, Perry Ng að dúttla með boltann við eigin endalínu þegar Díaz mætti á ferðinni og hirti hann af honum. Díaz tók sér smá tíma áður en hann lagði boltann út í teiginn þar sem Takumi Minamino mætti og kláraði vel.

Luis Díaz leggur upp annað mark Liverpool fyrir Takumi Minamino.
Luis Díaz leggur upp annað mark Liverpool fyrir Takumi Minamino. AFP

Á 76. mínútu fékk varamaðurinn Andy Robertson boltann svo vinstra megin við vítateig Cardiff. Hann smellti boltanum fyrir á Elliott sem átti flotta móttöku áður en hann smellti boltanum á lofti í nærhornið, virkilega smekklega gert. Fjörið var þó ekki búið enn því gestirnir áttu eftir að minnka muninn. Varamaðurinn Isaak Davies keyrði þá upp völlinn í skyndisókn og fann annan varamann, Rubin Colwill sem tók við boltanum, lék með hann á milli Konaté og Van Dijk í vörn Liverpool áður en hann kláraði mjög vel niðri í hornið frá vítateigslínu. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 3:1, Liverpool í vil.

Liverpool er því komið áfram í fimmtu umferð keppninnar sem jafnframt er 16-liða úrslit. Liðið mætir þar öðru úrvalsdeildarfélagi, Norwich City á heimavelli. 

Díaz og Elliott komu inná á sama tíma í leiknum.
Díaz og Elliott komu inná á sama tíma í leiknum. AFP
Liverpool 3:1 Cardiff opna loka
90. mín. Við erum komin í uppbótartíma og liðin virðast bæði vera að bíða eftir lokaflauti dómarans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert