Brasilíumenn United með veiruna

Alex Telles (fyrir miðju) og Fred (t.h.) eru báðir smitaðir …
Alex Telles (fyrir miðju) og Fred (t.h.) eru báðir smitaðir af kórónuveirunni. AFP

Brasilísku knattspyrnumennirnir Alex Telles og Fred, leikmenn Manchester United, eru báðir smitaðir af kórónuveirunni.

Af þeim sökum verða þeir ekki með þegar United sækir Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í botnliði Burnley heim í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

Telles greindist fyrr en Fred þar sem hann missti af bikarleiknum gegn Middlesbrough á föstudagskvöld vegna smitsins en Fred lék allan þann leik.

Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri United, sagði á blaðamannafundi í dag að þar sem Fred smitaðist síðar missi hann af leiknum á morgun og jafnvel leiknum gegn Southampton næstkomandi laugardag.

Hins vegar muni Telles einungis missa af leiknum gegn Burnley annað kvöld en ætti að vera klár í slaginn um helgina.

Rangnick sagði þá að Jesse Lingard og Édinson Cavani, sem báðir fengu frí í leiknum gegn Middlesbrough, muni snúa aftur í leikmannahópinn annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert