Brasilísku knattspyrnumennirnir Alex Telles og Fred, leikmenn Manchester United, eru báðir smitaðir af kórónuveirunni.
Af þeim sökum verða þeir ekki með þegar United sækir Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í botnliði Burnley heim í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.
Telles greindist fyrr en Fred þar sem hann missti af bikarleiknum gegn Middlesbrough á föstudagskvöld vegna smitsins en Fred lék allan þann leik.
Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri United, sagði á blaðamannafundi í dag að þar sem Fred smitaðist síðar missi hann af leiknum á morgun og jafnvel leiknum gegn Southampton næstkomandi laugardag.
Hins vegar muni Telles einungis missa af leiknum gegn Burnley annað kvöld en ætti að vera klár í slaginn um helgina.
Rangnick sagði þá að Jesse Lingard og Édinson Cavani, sem báðir fengu frí í leiknum gegn Middlesbrough, muni snúa aftur í leikmannahópinn annað kvöld.