Ralf Rangnick, bráðabirgðastjóri enska knattspyrnufélagsins Manchester United, segir liðið vera að bæta sig þrátt fyrir að hafa fallið úr enska bikarnum gegn B-deildarliðinu Middlesbrough síðastliðið föstudagskvöld.
Rangnick hefur stýrt liðinu í 11 leikjum. Í sex þeirra hafa leikirnir unnist, þrír hafa endað með jafntefli og tveir leikjanna hafa tapast.
„Ég er þess fullviss að við erum að spila á hærra stigi en við gerðum fyrir tveimur vikum. Bæði með boltann og án hans hefur liðið bætt sig,“ sagði Rangnick á blaðamannafundi í dag.
United hefur farið úr sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og upp í það fjórða frá því Rangnick tók við þó bæði Arsenal og Tottenham Hotspur geti náð liðinu vinni þau leikina sem þau eiga til góða.
„Akkúrat núna erum við í fjórða sæti í deildinni og allir innan félagsins, ég meðtalinn, myndu vera ánægðir ef við endum tímabilið í fjórða sæti,“ bætti Rangnick við.
United heimsækir botnlið Burnley í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson mun ekki leika með Burnley eftir að hafa farið í skurðaðgerð í kjölfar þess að hann greindist með botnlangabólgu á dögunum.