Kurt Zouma, knattspyrnumaður hjá West Ham og leikmaður með franska landsliðinu, hefur beðist afsökunar eftir að myndband fór í umferð á samfélagsmiðlum þar sem hann misþyrmir ketti á heimili sínu.
West Ham hefur lýst því yfir að félagið fordæmi framkomu Zouma og dýraverndunarsamtökin RSPCA hafa einnig gefið út yfirlýsingu og fordæmt háttalag fótboltamannsins.
„Við höfum rætt við Kurt og munum taka á þessu máli innan félagsins en við viljum leggja áherslu á að við samþykkjum á engan hátt slæma meðferð á dýrum," segir í yfirlýsingu West Ham.
Á myndbandinu sem bróðir Zouma virðist hafa tekið má sjá varnarmanninn sparka ítrekað í köttinn, elta hann og slá hann, en barn sést fylgjast með aðförunum. Þá sést Zouma kasta skóm í köttinn þar sem hann er á flótta og að lokum má sjá hann slá köttinn í andlitið.
„Ég bið þá innilega fyrirgefningar sem var misboðið með þessu myndbandi og vil taka fram að kettirnir okkar tveir eru við bestu heilsu, elskaðir og dáðir af allri fjölskyldunni, og þessi hegðun mín var einstakt tilfelli sem endurtekur sig ekki," sagði Zouma í yfirlýsingu.
Myndskeiðið sem bróðir Zouma birti á Snapchat: