United tapaði stigum gegn botnliðinu

Paul Pogba með boltann í kvöld.
Paul Pogba með boltann í kvöld. AFP

Manchester United tapaði stigum gegn botnliði Burnley er liðin mættust á Turf Moor í Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Lokatölur urðu 1:1. United fór niður í fimmta sætið með úrslitunum, þar sem liðið er með 39 stig. Burnley er sem fyrr á botninum, nú með 14 stig.

Manchester United-menn héldu að þeir væru að komast yfir á 12. mínútu þegar Raphael Varane skallaði í netið úr teignum eftir aukaspyrnu frá Bruno Fernandes en markið var að lokum dæmt af vegna rangstöðu á Harry Maguire sem var talinn hafa áhrif á leikinn, þrátt fyrir að hann hafi verið hvergi nærri boltanum.

Markið kom hinsvegar aðeins þremur mínútum síðar þegar Paul Pogba kláraði mjög vel úr teignum eftir sendingu frá Luke Shaw sem hafði brunað upp vinstri kantinn. Aðeins örfáum mínútum síðar setti Ben Mee, fyrirliði Burnley, boltann í eigið mark en aftur var markið dæmt af, í þetta skiptið vegna brots hjá markaskoraranum Paul Pogba.

United fékk fín færi það sem eftir lifði hálfleiksins en Nick Pope í marki Burnley varði nokkrum sinnum vel, þar á meðal tvisvar frá Marcus Rashford í fínum færum. Mörkin urðu því ekki fleiri í fyrri hálfleik.

Það tók Burnley aðeins þrjár mínútur að jafna í seinni hálfleik þegar Jay Rodriguez slapp í gegnum vörnina eftir sendingu frá Wout Weghorst og skoraði af öryggi framhjá David De Gea í marki United.

Weghorst komst næst því að skora sigurmarkið fyrir Burnley en De Gea varði mjög vel frá honum skömmu eftir markið. Hinum megin gekk United illa að reyna á Pope í marki Burnley, þrátt fyrir að Cristiano Ronaldo hafi komið inn á sem varamaður um miðjan hálfleikinn. Mörkin urðu því ekki fleiri.

Burnley 1:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Sancho með fyrirgjöf en Tarkowski er vel staðsettur og kemur boltanum í burtu. Tíminn er að renna út fyrir United.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert