Christian Eriksen segist ekki vera í neinni tímapressu með að spila sinn fyrsta leik með Brentford í ensku úrvalsdeildinni og það sé líka í höndum Thomas Franks knattspyrnustjóra að velja sitt lið.
Eriksen hóf æfingar með Brentford á mánudag eftir að hafa samið við félagið 31. janúar um að leika með því út þetta keppnistímabil. Eriksen hefur ekki spilað leik síðan hann hneig niður og fékk hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands í úrslitakeppni EM 12. júní síðasta sumar.
„Mér líður vel en rétt eins og þegar maður er að koma sér af stað aftur með meiðsli og hefur ekki spilað fótbolta lengi tekur þetta sinn tíma. En ég er í góðu standi, ég hleyp mikið og líkamlega séð er ég fínum stað. Nú er það bara tilfinningin fyrir boltanum sem ég þarf að ná aftur, og síðan leikformið. Við verðum að sjá til hvernig þetta þróast," sagði Eriksen við heimasíðu Brentford.
Hann vill ekki tímasetja endurkomuna nákvæmlega. „Ég tek mér góðan tíma og geri allt mitt til að vera í góðu formi, og svo er það Thomas Frank sem velur liðið," sagði Christian Eriksen.
Eriksen verður tæplega með gegn Manchester City annað kvöld en Brentford á framundan heimaleik gegn Crystal Palace á laugardaginn kemur og síðan útileik gegn Arsenal laugardaginn 19. febrúar.