Vangaveltur hafa verið um framtíð velska knattspyrnumannsins Gareth Bale undanfarna mánuði en samningur hans við Real Madrid rennur út í sumar.
Talsvert hefur verið fjallað um að hann muni hreinlega leggja skóna á hilluna, annaðhvort í sumar, eða þá um áramótin ef velska landsliðið kemst í lokakeppni HM í Katar en það fer í umspil um sæti þar í mars.
Spænskir fjölmiðlar sögðu á dögunum að Bale væri þegar búinn að semja við nýtt félag. Nú hefur blaðið El Nacional stigið skrefinu lengra og segir að hann sé á leiðinni til síns gamla félags, Tottenham, og samningar séu þegar í höfn.
Bale kom til Real Madrid frá Tottenham fyrir metfé árið 2013 og fór þangað aftur sem lánsmaður á síðasta keppnistímabili. Þar sem Bale verður samningslaus í sumar þyrfti Tottenham ekki að greiða Real Madrid krónu fyrir hann.