Dýraverndunarsamtökin RSPCA hafa fengið tvo heimilisketti í eigu Kurt Zouma, leikmanns enska knattspyrnufélagsins West Ham, til skoðunar í kjölfarið á myndskeiði af ofbeldi Zouma í garð annars kattarins sem fór sem eldur í sinu um netheima fyrr í vikunni.
Í yfirlýsingu frá samtökunum segir: „Við viljum fullvissa fólk um að við erum að skoða málið og kettirnir eru í öruggri vörslu hjá okkur. Við höfum verið með þetta mál í vinnslu síðan myndskeiðið birtist og þurfum að fara eftir öllum lögum og reglum."
West Ham sektaði Zouma fyrir tiltækið og gríðarleg reiði hefur beinst að varnarmanninum síðustu sólarhringa. The Guardian segir að samkvæmt sínum heimildum hafi hann verið sektaður um tveggja vikna laun en West Ham hafði lýst því yfir að beitt hefði verið hæstu mögulegu sekt í málinu.
Zouma lék með West Ham gegn Watford í gærkvöld og þá blossaði upp mikil reiði á ný, að þessu sinni í garð David Moyes knattspyrnustjóra félagsins fyrir að leyfa honum að spila leikinn.
„Félagið er búið að gera allt sem mögulegt er í þessu máli. Mitt starf felst í því að verla besta liðið fyrir hvern leik og Kurt er hluti af því," sagði Moyes við fjölmiðla eftir sigurinn í gærkvöld, 1:0.
Þetta kann að hafa afleiðingar fyrir félagið því einn af stærstu styrktaraðilum þess, Experience Kissimmee, lýsti því yfir að samstarf og auglýsingar á vettvangi West Ham yrði endurskoðað í kjölfar þess að leikmaðurinn hafi verið látinn spila leikinn í gær.