Við flæktum líf okkar

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham. AFP

„Þetta eru svekkjandi úrslit því mér fannst við spila vel, sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, í samtali við BT Sport eftir 2:3-tap liðsins gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í Lundúnum í kvöld.

Staðan í hálfleik var 1:1 en Heung-Min Son kom Tottenham yfir á 70. mínútu áður en Mohamed Elyounoussi og Che Adams skoruðu sitt hvort markið fyrir Southampton undir restina.

„Eftir að við komumst yfir í seinni hálfleik fannst mér við gera nóg til þess að vinna leikinn en svona er fótboltinn. Við vorum 1:2-undir gegn Leicester á dögunum en unnum 3:2. Núna vorum við 2:1-yfir en endum á að tapa leiknum 2:3.

Það er langur vegur framundan hjá liðinu og ég þarf líka að bæta mig sem knattspyrnustjóri og taka betri ákvarðanir þegar leikurinn er í ójafnvægi. Það er hellingur af hlutum sem við þurfum að bæta og við munum gera það,“ sagði Conte.

Þrátt fyrir tapið var Conte sáttur með vinnuframlag sinna manna.

„Ég sagði strákunum í hálfleik að við þyrftum að vera skynsamari á boltanum og taka betri ákvarðanir. Við gerðum okkur erfitt fyrir og flæktum líf okkar um of á stórum köflum með rangri ákvarðanatöku.

Leikmennirnir gáfu allt í leikinn og af því er ég stoltur en á sama tíma er það sorglegt líka því við fengum ekkert út úr þessu. Þetta er ungt lið sem þarf tíma til þess að öðlast reynslu í ensku úrvalsdeildinni,“ bætti Conte við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert