Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, hefur hafnað tilboði um að taka við starfi knattspyrnustjóra hjá Sunderland.
Keane, sem áður stýrði Sunderland á árunum 2006 til 2008 og kom liðinu upp í úrvalsdeildina á fyrra tímabilinu, virtist langt kominn með að ráða sig til félagsins en tilkynnti Sunderland óvænt í fyrrakvöld að hann myndi ekki taka við starfinu, samkvæmt The Guardian.
Sunderland, sem er í þriðja sæti C-deildarinnar, rak Lee Johnson eftir þrjá tapleiki liðsins í röð en þar á bæ er allt lagt í sölurnar til að koma liðinu upp um deild á ný en það féll úr B-deildinni árið 2018.
Keane, sem er fimmtugur, var um árabil aðstoðarþjálfari írska landsliðsins og síðan þjálfari hjá Nottingham Forest, en hefur ekki unnið sem knattspyrnustjóri frá því honum var sagt upp störfum hjá Ipswich árið 2011. Hann hefur að undanförnu verið knattspyrnusérfræðingur í sjónvarpi.