Hvers konar maður væri ég?

Wayne Rooney vill einbeita sér að því að halda Derby …
Wayne Rooney vill einbeita sér að því að halda Derby í B-deildinni. AFP

Wayne Rooney knattspyrnustjóri Derby County segir að það hafi ekki komið til greina að yfirgefa sitt lið við fyrsta tækifæri en kveðst vonast eftir því að sér bjóðist einhvern tíma síðar að stjórna Everton eða Manchester United.

Eftir að Rafael Benítez var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Everton beindust margra augu að Rooney sem hefur gert góða hluti með lið Derby í B-deildinni í vetur þrátt fyrir að  félagið rambi á barmi gjaldþrots, megi ekki kaupa leikmenn og hafi fengið 21 stig í mínus.

Eftir sigur á Hull, 3:1, í fyrrakvöld er Derby aðeins fjórum stigum frá því að komast úr fallsæti og talað er um að það yrði eitt mesta kraftaverkið í enska  fótboltanum á seinni árum ef Rooney tækist að halda liðinu í deildinni í vetur.

Everton falaðist eftir því að fá að ræða við Rooney um að taka við af Benítez og ræddi við umboðsmenn hans en Rooney hafnaði því að ræða málin við uppeldisfélagið sitt.

„Ég ákvað að fara ekki í þetta viðtal vegna starfsins hjá Everton. Ég hef alltaf viljað takast á við áskoranir, leggja hart að mér og berjast. Ég hef staðið frammi fyrir mínum leikmönnum hjá Derby og sagt  við þá: Treystið mér, ég tek þennan slag með ykkur." Hvers konar maður væri ég ef ég myndi yfirgefa þá við fyrsta tækifæri," sagði Rooney í viðtali við The Mirror.

„Ég hef sagt það áður að Manchester United og Everton eru lið sem ég myndi vilja fá að  stjórna á einhverjum tímapunkti en ég er í starfi hjá Derby og að því á ég að einbeita mér," sagði Wayne Rooney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert