Liverpool vann góðan 2:0-sigur á Leicester City þegar liðin mættust á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld. Portúgalinn Diogo Jota var hetja Liverpool og skoraði bæði mörk liðsins.
Leikurinn byrjaði fjörlega þar sem Liverpool pressaði hátt og af miklum krafti. Það var hins vegar Leicester sem fékk fyrsta færi leiksins á sjöundu mínútu.
James Maddison slapp þá í gegn eftir laglegt spil og náði föstu skoti í nærhornið sem Alisson varði vel aftur fyrir.
Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta þar sem Liverpool hélt boltanum en skapaði sér lítið gegn þéttri vörn Leicester.
Á 34. mínútu kom hins vegar fyrsta markið. Trent Alexander-Arnold tók þá hornspyrnu frá hægri, fann þar Virgil van Dijk á nærstönginni sem náði föstum skalla, beint á Kasper Schmeichel í marki Leicester. Daninn varði boltann út en beint fyrir fætur Jota sem skoraði auðveldlega af stuttu færi.
Eftir markið tókst Liverpool að fóta sig betur í sókninni þar sem Roberto Firmino komst næst því að bæta við marki undir lok fyrri hálfleiksins þegar skot hans úr vítateignum í kjölfar laglegs þríhyrnings við Jota fór beint á Schmeichel sem varði boltann út úr teignum.
Staðan því 1:0 í leikhléi.
Í síðari hálfleik réði Liverpool lögum og lofum og fékk nokkur frábær færi.
Mohamed Salah, sem kom inn á sem varamaður, slapp til að mynda aleinn í gegn á 74. mínútu eftir mistök Kiernan Dewsbury-Hall en Schmeichel gerði vel í að sjá við Egyptanum.
Skömmu síðar átti Salah stórkostlegt skot rétt innan vítateigs sem hafnaði ofan á samskeytunum.
Luis Díaz gerði sig líklegan með þrumuskoti í sömu sókn en Schmeichel var einu sinni sem áður vel á verði.
Á 82. mínútu slapp Díaz í gegn eftir laglega sendingu Salah en enn á ný varði Schmeichel, að þessu sinni með fótunum.
Fimm mínútum síðar, á 87. mínútu, náði Liverpool loks að tvöfalda forystu sína og gera þannig út um leikinn. Eftir mikla pressu náði Matip að koma boltanum á Jota sem var búinn að slíta sig lausan fyrir miðjum vítateignum, skaut að marki og Schmeichel varði boltann í netið.
Staðan orðin 2:0 og reyndust það lokatölur.
Liverpool heldur kyrru fyrir í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er nú níu stigum á eftir toppliði Manchester City og á auk þess leik til góða.
Leicester færist sömuleiðis ekki úr stað og er áfram í 12. sæti deildarinnar.