Emmanuel Petit, heims- og Evrópumeistari í knattspyrnu 1998 og 2000, er á margan hátt gagnrýninn á áherslurnar og umræðuna í íþróttinni í dag.
Petit gerði það gott á sínum tíma með Arsenal og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni og hann ræddi við Símann Sport um eitt og annað sem viðkemur ensku úrvalsdeildinni. Petit nefnir að minni áhersla virðist vera lögð á liðsheildina og meiri á einstaklinga um þessar mundir. Ekki einungis hjá liðunum sjálfum heldur í allri umræðu og nálgun í kringum íþróttina. Þar eigi margir hlut að máli en þetta sé ekki skynsamleg þróun.
„Eftir að Cristiano [Ronaldo] snéri aftur til Manchester United er talað um Cristiano Ronaldo eftir hvern einasta leik. Viðbrögðin eftir síðasta leik gegn Brentford þegar honum var skipt út af, baráttuna í liðinu og að liðið spili ekki vel. Ef menn halda áfram að tala látlaust á þessum nótum þá eru menn ekki að ræða hvað er mikilvægast fyrir liðið. Ekki þarf að velkjast í vafa um að það eru enn frábærir leikmenn hjá Manchester United en þeir eru ekki með lið. Að beina allri athyglinni að Cristiano Ronaldo er nokkuð sem ég myndi aldrei gera,“ segir Frakkinn meðal annars.
Petit segist fá á tilfinninguna að það skipti marga leikmenn í ensku úrvalsdeildinni litlu máli þótt þeir tapi leikjum. Þeim standi kannski ekki á sama en úrslitin skipti þá ekki mjög miklu máli. Þeir séu tilbúnir að hugsa um næsta leik. Petit segist sjálfur hafa verið svo gott sem óviðræðuhæfur eftir tapleiki og sama megi segja um marga af liðsfélögum hans í hinu frábæra Arsenal liði sem Petit lék með á tíunda áratuginum. Samherjar og fjölskyldumeðlimir hafi vitað að lítið þýddi að ræða við menn eftir tapleiki fyrr en daginn eftir. Vissulega hafi verið leikmenn sem ekki hafi tekið úrslit mikið inn á sig en þeir hafi verið í minnihluta.
„Stundum sé ég leikmenn á vellinum eftir tapleik, kannski tíu sekúndum eftir að leiknum lauk, brosandi með mótherjunum. Talandi við mótherjana og slá á létta strengi þótt innan við mínúta sé liðin frá því leikurinn tapaðist. Þetta gæti ég ekki gert. Það væri útilokað,“ sagði Petit einnig og bætti því við að stundum komi framkoma leikmanna, eins og þessi, sér mjög á óvart.
Þegar talið barst að Arsenal og fyrrverandi leikmanni liðsins Pierre-Emerick Aubameyang varpaði Petit fram áhugaverðum spurningum varðandi framkomu leikmannsins sem var fyrirliði Arsenal um tíma.
Viðtalið við Petit í heild sinni má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.