Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool er afar ánægður með nýja manninn, Luis Díaz, sem lék fyrsta úrvalsdeildarleik sinn fyrir félagið í gærkvöld þegar Liverpool vann Leicester 2:0 á Anfield.
Liverpool keypti kantmanninn frá Kólumbíu af Porto fyrir 37 milljónir punda í lok janúar og hann hafði áður komið inn á sem varamaður gegn Cardiff í bikarkeppninni, þar sem hann lagði upp mark.
„Þetta er sennilega einhver besta byrjun sem ég hef séð hjá nýjum leikmanni. Hann var algjörlega eins og heima hjá sér, en þetta var bara fyrsti leikurinn og við þurfum að bíða og sjá hvernig honum gengur að aðlagast mismunandi aðstæðum og ákafanum í úrvalsdeildinni. Það er engin pressa á honum en í gærkvöld var upplagt að gefa honum tækifæri þar sem Sadio Mané var ekki til staðar og Mo Salah var nýkominn úr mjög krefjandi keppni.
Þetta var því upplagt tækifæri til að nota Díaz og hann mætti til leiks," sagði Klopp á fréttamannafundi í dag.
Ljóst er að Díaz fær harða samkeppni um stöðu í byrjunarliðinu fyrir leikinn gegn Burnley á sunnudaginn því Salah og Sadio Mané eru báðir komnir aftur úr Afríkukeppninni. Salah var varamaður í gærkvöld og kom inn á og Mané mætti aftur á æfingu í dag eftir að hafa farið heim til Senegal til að fagna Afríkumeistaratitlinum.