Fyrirliðinn Jordan Henderson kemur aftur inn í leikmannahóp Liverpool fyrir leik liðsins gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.
Jürgen Klopp knattspyrnustjóri staðfesti á fréttamannafundi í dag að Henderson hefði jafnað sig af smávægilegum meiðslum sem urðu til þess að hann var ekki með í 2:0 sigurleiknum gegn Leicester á Anfield í gærkvöld.
Klopp sagði ennfremur að Joe Gomez og Divock Origi væru báðir heilir heilsu og leikfærir enda þótt þeir hefðu ekki verið í leikmannahópnum í gærkvöld. Hópurinn væri stór og breiður og stundum kæmust frábærir leikmenn ekki í hann á leikdegi. Varðandi Gomez, þá hefði verið of mikið að vera með tvo miðverði á bekknum, og varðandi Origi þá væri hann nýkominn af stað eftir meiðsli.