Hrósar van de Beek í hástert

Donny van de Beek (t.h.) ásamt Dele Alli en þeir …
Donny van de Beek (t.h.) ásamt Dele Alli en þeir gengu báðir til liðs við Everton í janúar. AFP

Frank Lampard, knattspyrnustjóri enska liðsins Everton, er einn af mörgum sem hafa hrósað Hollendingnum Donny van de Beek fyrir frammistöðu sína í leik liðsins gegn Leeds í gær.

Van de Beek var fyrsti leikmaðurinn sem Lampard fékk til liðs við Everton en hann kom á lánssamningi frá Manchester United. Þar hafði honum gengið illa að vinna sig inn í liðið og voru tækifærin af skornum skammti.

Hollendingurinn lék sinn fyrsta leik fyrir Everton á þriðjudaginn þegar hann kom inn á sem varamaður í 3:1 tapi gegn Newcastle. Hann byrjaði svo sinn fyrsta leik í gær og var valinn maður leiksins.

Lampard fór fögrum orðum um van de Beek eftir leik.

„Ég átti von á svona frammistöðu frá honum. Ég hef vitað af Donny lengi og fékk hann hingað vegna hæfileika hans, gáfum og dugnaði. Hann var yfirvegaður á boltanum en það er nákvæmlega þess vegna sem ég fékk hann hingað. Ég er mikill aðdáandi af honum sem leikmanni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka