West Ham náði í jafntefli í uppbótartíma

Craig Dawson skallar boltann í netið í uppbótartíma í dag.
Craig Dawson skallar boltann í netið í uppbótartíma í dag. AFP

Leicester og West Ham gerðu 2:2 jafntefli á King Power-vellinum í Leicester í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Varnarmaðurinn Craig Dawson jafnaði metin fyrir gestina í uppbótartíma.

Besti leikmaður West Ham á tímabilinu, Jarrod Bowen kom sínum mönnum yfir eftir einungis 10 mínútna leik en Belginn Youri Tielemans jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks úr vítaspyrnu eftir að boltinn fór í hendi Aaron Cresswell inni í teig West Ham.

Hægri bakvörðurinn Ricardo Pereira kom Leicester svo yfir á 57. mínútu eftir undirbúning Harvey Barnes en í uppbótartíma jafnaði Dawson metin. Jafntefli því niðurstaðan í leik sem skipti miklu máli fyrir bæði lið.

Leicester er í 11. sæti deildarinnar með 27 stig eftir 22 leiki og virðast vera að missa af baráttunni um evrópusæti deildarinnar. West Ham er hins vegar í harðri baráttu um sæti í Meistaradeildinni að ári en liðið er í fjórða sæti með 41 stig eftir 25 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka