Enska knattspyrnuliðið Newcastle varð fyrir miklu áfalli í gær þegar bakvörðurinn reyndi Kieran Trippier braut bein í fæti í sigurleiknum gegn Aston Villa, 1:0.
Trippier var keyptur frá Atlético Madrid í janúar fyrir 12 milljónir punda og kom sterkur inn í lið Newcastle sem hefur bætt stöðu sína verulega og er komið fjórum stigum uppfyrir fallsæti. Trippier skoraði sigurmarkið í leiknum beint úr aukaspyrnu áður en hann þurfti að fara af velli í byrjun síðari hálfleiks.
Newcastle tilkynnti í dag að myndataka hefði leitt í ljós brot í beini í ristinni og hann yrði frá keppni um óákveðinn tíma. Eddie Howe knattspyrnustjóri skýrði frá því að stigið hefði verið ofan á ristina á Trippier. Ólíklegt er að hann nái að spila meira á þessu keppnistímabili.