Eriksen lagði upp mark í fyrsta leiknum

Christian Eriksen klæddist Brentford-treyju í fyrsta sinn í leik í …
Christian Eriksen klæddist Brentford-treyju í fyrsta sinn í leik í dag. AFP

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen lék sinn fyrsta leik í átta mánuði í dag, eða síðan hann hneig niður með hjartastopp í leik Dana og Finna á EM síðasta sumar.

Hann lék æfingaleik með Brentford gegn Southend, fyrir luktum dyrum, og lék í rúman klukkutíma í 3:2 sigri. Eriksen lagði upp fyrsta mark liðsins fyrir Josh Dasilva.

Dagurinn er líka merkilegur fyrir Eriksen að öðru leyti því hann á þrítugsafmæli í dag.

Brentford mætir Arsenal í úrvalsdeildinni um næstu helgi og leikur síðan við Newcastle. Thomas Frank knattspyrnustjóri félagsins sagði um helgina að hann væri bjartsýnn á að Eriksen myndi spila með liðinu í deildinni áður en febrúar væri úti en hann samdi við félagið 31. janúar og er samningsbundinn út þetta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert