Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, gagnrýndi leikmenn liðsins harðlega í hlaðvarpsþætti Sky Sports um helgina.
Neville, sem er 46 ára gamall, starfar í dag sem sparkspekingur hjá Sky Sports en það hefur ýmislegt gengið á í herbúðum enska félagsins á leiktíðinni.
Ole Gunnar Solskjær var rekinn í nóvember á síðasta ári og við tók Þjóðverjinn Ralf Rangnick en fjölmiðlar á Bretlandi hafi verið duglegir að fjalla um meinta óánægju innan leikmannahópsins undanfarnar vikur.
„Það sem er að gerast hjá Manchester United þessa dagana er að umboðsmenn og markaðs- og upplýsingafulltrúar leikmannanna eru að leka allskonar upplýsingum í fjölmiðla,“ sagði Neville.
„Þeir eru að reyna vernda eigin leikmenn en þeir virðast ekki meðvitaðir um það að þegar svona sögur fara af stað þá fara þær beint til okkar líka og við vitum því nákvæmlega hvaðan þetta kemur.
Ég er ekki að fara nafngreina þessa leikmenn, í fyrsta lagi því það færi gegn siðareglum blaðamanna og það væri líka ósanngjarnt að henda leikmönnunum algjörlega fyrir rútuna en svona hegðun er algjörlega til skammar,“ bætti Neville við.