Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United á Englandi, ætlar sér ekki að taka fyrirliðabandið af Harry Maguire, varnarmanni liðsins. Það tilkynnti hann í samtali við Sky Sports.
Maguire, sem er 28 ára gamall, hefur átt erfitt uppdráttar á þessari leiktíð en hann gekk til liðs við United frá Leicester sumarið 2019 fyrir metfé.
Ole Gunnar Solskjær gerði hann að fyrirliða liðsins fljótlega eftir komuna til félagsins en hann hefur ekki náð að vinna stuðningsmenn liðsins á sitt band.
„Hann hefur staðið sig mjög vel eftir að hann jafnaði sig af meiðslum og snéri aftur í liðið,“ sagði Rangnick.
„Hann hefur átt slæm augnablik í síðustu leikjum, alveg eins og aðrir leikmenn liðsins, en ég sé enga ástæðu til þess að taka af honum fyrirliðabandið.
Hann þarf tíma til þess að aðlagast nýju leikkerfi og nýjum áherslum. Það mun taka tíma enda er leikstíllinn mjög breyttur og það þarf að sýna honum þolinmæði,“ bætti Rangnick við.