Manchester United lagði Brighton 2:0 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í Manchester í kvöld.
Fyrri hálfleikurinn sló engin met yfir skemmtanagildi en gestirnir voru þó heilt yfir betri aðilinn. Bæði lið fengu góð færi á fyrstu tíu mínútum leiksins, fyrst Jakub Moder fyrir Brighton og svo Jadon Sancho fyrir United. Besta færi hálfleiksins kom þó þegar stutt var til leikhlés, en þá átti áðurnefndur Moder skalla úr teignum sem David De Gea varði frábærlega. Staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks og mátti heyra baul frá stuðningsmönnum United þegar liðin gengu til búningsklefa.
Fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks bættu nánast upp leiðindin í þeim fyrri. Á 51. mínútu tapaði Yves Bissouma boltanum á hættulegum stað fyrir Brighton og barst hann til Cristiano Ronaldo. Hann tók nokkrar snertingar rétt utan teigs áður en hann smellti boltanum í netið, alveg út við stöng og gjörsamlega óverjandi fyrir Roberto Sánchez markvörð Britghton. Heimamenn voru svo vart búnir að fagna markinu þegar Lewis Dunk gerði sig sekan um skelfileg mistök. Hann var þá að dóla með boltann í öftustu línu þegar hinn ungi Anthony Elanga hirti hann bara af honum. Elanga var í raun og veru sloppinn einn í gegn þegar Dunk reif hann niður og fékk að líta gula spjaldið, en eftir að hafa skoðað atvikið aftur í VAR-skjánum breytti Peter Bankes dómari leiksins spjaldinu í rautt.
Bæði lið gátu bætt við mörkum í þennan leik eftir rauða spjaldið. Cristiano Ronaldo fékk tvö mjög góð skallafæri og Bruno Fernandes fékk líklega besta færi leiksins eftir hræðileg mistök Sánchez í markinu. Þá komst Jakub Moder næst því að jafna fyrir gestina þegar hann átti bylmingsskot í þverslánna en það var að lokum Bruno Fernandes sem kláraði sigur United. Brighton var þá með alla menn frammi þegar það losnaði um Bruno á eigin vallarhelmingi. Hann hljóp upp allan völlinn, inn á teiginn, þar sem hann plataði Sánchez áður en hann skoraði í opið markið
Með sigrinum fer United upp í fjórða sæti deildarinnar tímabundið hið minnsta með 43 stig en Arsenal á þrjá leiki til góða með 39 stig í sjötta sæti. Brighton er áfram í níunda sæti með 33 stig.