Elliott byrjar á San Siro

Harvey Elliott spilar gegn Inter í kvöld.
Harvey Elliott spilar gegn Inter í kvöld. AFP

Miðjumaðurinn ungi Harvey Elliott er í byrjunarliði Liverpool í kvöld þegar liðið sækir Ítalíumeistara Inter Mílanó heim á San Siro í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í knattspyrnu.

Jürgen Klopp hefur nánast alla sína menn tiltæka í leikinn og er með afar öflugan tólf manna varamannabekk í kvöld.

Elliott, sem er nýkominn í gang eftir að hafa meiðst illa í haust, er hinsvegar á miðjunni ásamt Fabinho og Thiago á meðan Jordan Henderson, Naby Keita og James Milner sitja allir á bekknum ásamt mönnum á borð við Joel Matip, Luis Dias, Roberto Firmino og Luis Díaz.

Alisson ver mark Liverpool, Alexander Arnold, van Dijk, Konaté og Robertson eru í varnarlínunni og fremstu menn eru Salah, Jota og Mané.

Leikurinn á San Siro hefst klukkan 20 en þetta er fyrri viðureign liðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert