Forráðamenn West Ham United hafa rætt við Dagnýju Brynjarsdóttur, landsliðskonu í knattspyrnu, um að vera áfram hjá félaginu á næsta keppnistímabili.
Samningur Dagnýjar við West Ham rennur út í sumar en Dagný sagði á blaðamannafundi KSÍ í dag að hún hafi fengið þau skilaboð að hjá West Ham sé vilji til að gera við hana nýjan samning.
Hún orðaði það þannig að viðræður væru hafnar en lagði áherslu á að margt geti gerst í boltanum og ekkert sé staðfest fyrr en skrifað hafi verið undir samninga.
Hún sagðist alveg geta hugsað sér að vera áfram hjá félaginu. Fjölskyldunni líði vel og London sé góð staðsetning, til dæmis varðandi fjarlægðina frá Íslandi.
Dagný hefur leikið 12 af 14 leikjum West Ham í úrvalsdeildinni í vetur og skorað þrjú mörk en liðið er í sjöunda sæti af tólf liðum.