Ólíklegt að Jóhann spili um helgina

Jóhann Berg Guðmundsson og Paul Pogba eigast við í leik …
Jóhann Berg Guðmundsson og Paul Pogba eigast við í leik Manchester United og Burnley í desember á síðasta ári. AFP

Knattspyrnumaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson spilar að öllum líkindum ekki með félagsliði sínu Burnley í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Þetta staðfesti Sean Dyche, stjóri Burnley, á blaðamannafundi í morgun.

Burnley heimsækir Brighton á Falmer-völlinn í Brighton á laugardaginn en Burnley er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Jóhann Berg fékk botnlangakast, fyrstu vikuna í febrúar, og hefur misst af síðustu þremur leikjum liðsins vegna þessa. 

„Jóhann er ennþá að jafna sig af meiðslum og það er ólíklegt að hann verði með um helgina,“ sagði Dyche.

Jóhann Berg hefur leikið 18 leiki með Burnley á tímabilinu þar sem hann hefur lagt upp eitt mark en liðið er í neðsta sæti deildarinnar með 14 stig, 7 stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert