Við sitjum uppi með veikara lið

Antonio Conte er jafnan litríkur á hliðarlínunni hjá Tottenham.
Antonio Conte er jafnan litríkur á hliðarlínunni hjá Tottenham. AFP

Ítalski knattspyrnustjórinn Antonio Conte er afar óhress með stöðu mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham Hotspur en hann tók við stjórn liðsins 2. nóvember.

Conte segir að félagaskiptaglugginn í janúarmánuði hafi verið sínu liði afar óhagstæður og hann sitji nú uppi með lakari leikmannahóp en um áramótin.

Tanguy Ndombele, Giovani Lo Celso, Dele Alli og Bryan Gil hurfu á braut en í staðinn komu Dejan Kulusevski og Rodrigo Bentancur.

„Janúarmánuður var okkur erfiður. Við misstum fjóra mikilvæga leikmenn og fengum bara tvo í staðinn. Við eru því líklega með fámennari og veikari hóp en áður, í stað þess að við myndum styrkja hópinn," sagði Conte við Sky Sport Italia.

Eftir þrjá tapleiki í röð hefur Tottenham tapað niður vænlegri stöðu og sigið niður í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar en fyrst eftir að Conte tók við liðinu var það taplaust í níu leikjum í röð.

„Bentancur og Kulusevski eru mjög hentugir leikmenn fyrir Tottenham því félagið er með þá stefnu að ná í unga leikmenn og þróa þá og þroska, ekki leikmenn sem eru þegar tilbúnir. Það er málið. Þetta er stefna félagsins. Það er hinsvegar nauðsynlegt, ef þú vilt taka hraðari framförum og verða fyrr með frambærilegt lið, að  fá leikmenn með mikla reynslu, því þeir hjálpa líka við að byggja upp reynsluna í liðinu. En, ég hef núna áttað mig á stefnu félagsins," sagði Conte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert