Ralf Rangnick, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að enginn fótur sér fyrir fréttum enskra fjölmiðla um að til standi að svipta Harry Maguire fyrirliðastöðunni hjá liðinu.
Rangnick var spurður út í þetta á fréttamannafundi í dag en hann býr lið sitt undir að mæta Leeds á Elland Road á sunnudaginn.
„Þetta er tóm vitleysa. Ég hef ekkert rætt við leikmennina um fyrirliðastöðuna, það hefur aldrei verið neitt vandamál í mínum augum. Harry er fyrirliðinn okkar og verður áfram fyrirliðinn okkar," sagði Rangnick.
Hann sagði ennfremur að fréttir eins og þessar hefðu engin áhrif á sig. „Nei, alls ekki, ég læt þær ekki hafa nein áhrif á mig því ég veit að þær eru rangar. Ég leiði allt svona hjá mér því mín einbeiting fer í að undirbúa liðið. Ég hef heyrt af sumu sem hefur verið skrifað, og það voru vissulega leikmenn í okkar hópi óánægðir í lok félagaskiptagluggans. Það hefur breyst og andrúmsloftið í hópnum er betra en það var fyrir nokkrum vikum. Þetta snýst allt um að spila vel og sýna samstöðu á vellinum. Því getum við stjórnað sjálfir," sagði Ralf Rangnick.