Of snemmt að hann spili gegn Arsenal

Christian Eriksen spilar væntanlega eftir átta daga.
Christian Eriksen spilar væntanlega eftir átta daga. AFP

Thomas Frank knattspyrnustjóri Brentford segir að Christian Erikson sé ekki tilbúinn til að spila sinn fyrsta leik með félaginu á morgun og verði ekki með í leiknum gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.

Eriksen gekk til liðs við Brentford í lok janúar og býr sig undir að spila í fyrsta skipti síðan hann fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands í lokakeppni Evrópumótsins síðasta sumar. 

Frank sagði á fréttamannafundi í dag að það væri of snemmt fyrir Eriksen að spila gegn Arsenal en hann vonist eftir því að hann verði með gegn Newcastle næsta laugardag, 26. febrúar.

„Christian er á réttri leið. En hann hefur verið frá keppni í sjö mánuði og þarf því almennilegt undirbúningstímabil til að komast aftur af stað. Hann er með góðan  grunn en þessi leikur við Arsenal er aðeins of snemma fyrir hann. Við stefnum á leikinn við Newcastle," sagði Frank.

Leikur Arsenal og Brentford fer fram á Emirates-leikvanginum klukkan 15 á morgun og verður sýndur beint á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert