Harry Maguire, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United, birti áhugaverða færslu á samfélagsmiðlinum Twitter í morgun.
Breski miðillinn Mirror greindi frá því í morgun að Maguire og Cristiano Ronaldo væru að berjast um fyrirliðabandið hjá félaginu og að mikil óeining ríkti í búningsklefa liðsins.
Mikið hefur verið fjallað um málefni enska félagsins að undanförnu en Gary Neville sakaði leikmenn liðsins um að leka upplýsingum um það sem gerist í búningsklefa United í fjölmiðla á dögunum.
„Ég hef séð margar fréttir sem snúa að málefnum Manchester United sem eru ekki réttar, né sannar, og hér er ein þeirra,“ sagði Maguire og vísaði þar í frétt Mirror frá því í morgun.
„Ég ætla ekki að tjá mig um hverja einustu frétt sem skrifuð er en ég þurfti að koma þessu frá mér og á framfæri.
Það eina sem við erum að hugsa um er leikurinn á sunnudaginn og við stöndum þétt saman,“ bætti Maguire við.
I’ve seen a lot of reports about this club that aren’t true and this is another. Not going to start posting about everything that is written but I needed to make this one clear. We’re united and focused on Sunday. Enjoy your day everyone 💪🏻 @ManUtd https://t.co/YxLhQn8pqf
— Harry Maguire (@HarryMaguire93) February 18, 2022