Burnley úr botnsætinu – Watford skellti Villa

Wout Weghorst skoraði sitt fyrsta mark fyrir Burnley í dag.
Wout Weghorst skoraði sitt fyrsta mark fyrir Burnley í dag. AFP

Burnley og Watford unnu afar mikilvæga sigra í botnbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Chelsea, Arsenal og Southampton unnu á sama tíma leiki sína í deildinni.

Í leik Brighton og Burnley náðu gestirnir forystunni um miðbik fyrri hálfleiks þegar hollenski landsliðsmaðurinn Wout Weghorst skoraði sitt fyrsta mark fyrir Burnley.

Weghorst lagði svo upp mark fyrir Josh Brownhill á 40. mínútu og staðan því 2:0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik bætti Aaron Lennon við þriðja marki Burnley og frábær 3:0-útisigur Burnley því niðurstaðan.

Með sigrinum fer Burnley upp úr fallsæti eftir að hafa verið þar hartnær allt tímabilið. Þetta var aðeins annar sigur Burnley í deildinni á tímabilinu.

Norwich er í botnsætinu með 17 stig líkt og Burnley í 19. sætinu en Burnley er með betra markahlutfall.

Emmanuel Dennis reyndist hetja Watford þegar hann skoraði sigurmarkið í öflugum 1:0-útisigri á Aston Villa.

Kom markið á 78. mínútu og fór Watford með sigrinum upp í 18. sæti deildarinnar þar sem liðið er með 18 stig, einu stigi meira en Burnley og Norwich í sætunum fyrir neðan.

Var þetta fyrsti sigur Watford undir stjórn Roy Hodgson.

Roy Hodgson stýrði Watford til sigurs.
Roy Hodgson stýrði Watford til sigurs. AFP

Hakim Ziyech var hetja Chelsea þegar hann skoraði sigurmark liðsins á ögurstundu í 1:0-útisigri á nágrönnum þess í Crystal Palace.

Fyrst skoraði hann á 75. mínútu en VAR dæmdi markið af vegna rangstöðu. Á 89. mínútu var markið hans hins vegar gilt og reyndist það nóg til sigurs.

Christian Pulisic og Hakim Ziyech fagna sigurmarki þess síðarnefnda.
Christian Pulisic og Hakim Ziyech fagna sigurmarki þess síðarnefnda. AFP

Arsenal vann þá nauman 2:1-sigur á nágrönnum sínum í Brentford.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Emile Smith Rowe Arsenal yfir á 48. mínútu. Bukayo Saka tvöfaldaði forystuna á 79. mínútu.

Christian Nörgaard minnkaði muninn fyrir Brentford á fimmtu mínútu uppbótartíma en það var um seinan.

Bukayo Saka fagnar marki sínu.
Bukayo Saka fagnar marki sínu. AFP

Southampton fékk svo Everton í heimsókn og vann sterkan 2:0-sigur á lærisveinum Franks Lampards.

Markalaust var í leikhléi en Stuart Armstrong skoraði snemma í þeim síðari áður en Shane Long innsiglaði sigurinn seint í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert