Burnley og Watford unnu afar mikilvæga sigra í botnbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Chelsea, Arsenal og Southampton unnu á sama tíma leiki sína í deildinni.
Í leik Brighton og Burnley náðu gestirnir forystunni um miðbik fyrri hálfleiks þegar hollenski landsliðsmaðurinn Wout Weghorst skoraði sitt fyrsta mark fyrir Burnley.
Weghorst lagði svo upp mark fyrir Josh Brownhill á 40. mínútu og staðan því 2:0 í hálfleik.
Í síðari hálfleik bætti Aaron Lennon við þriðja marki Burnley og frábær 3:0-útisigur Burnley því niðurstaðan.
Með sigrinum fer Burnley upp úr fallsæti eftir að hafa verið þar hartnær allt tímabilið. Þetta var aðeins annar sigur Burnley í deildinni á tímabilinu.
Norwich er í botnsætinu með 17 stig líkt og Burnley í 19. sætinu en Burnley er með betra markahlutfall.
Emmanuel Dennis reyndist hetja Watford þegar hann skoraði sigurmarkið í öflugum 1:0-útisigri á Aston Villa.
Kom markið á 78. mínútu og fór Watford með sigrinum upp í 18. sæti deildarinnar þar sem liðið er með 18 stig, einu stigi meira en Burnley og Norwich í sætunum fyrir neðan.
Var þetta fyrsti sigur Watford undir stjórn Roy Hodgson.
Hakim Ziyech var hetja Chelsea þegar hann skoraði sigurmark liðsins á ögurstundu í 1:0-útisigri á nágrönnum þess í Crystal Palace.
Fyrst skoraði hann á 75. mínútu en VAR dæmdi markið af vegna rangstöðu. Á 89. mínútu var markið hans hins vegar gilt og reyndist það nóg til sigurs.
Arsenal vann þá nauman 2:1-sigur á nágrönnum sínum í Brentford.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Emile Smith Rowe Arsenal yfir á 48. mínútu. Bukayo Saka tvöfaldaði forystuna á 79. mínútu.
Christian Nörgaard minnkaði muninn fyrir Brentford á fimmtu mínútu uppbótartíma en það var um seinan.
Southampton fékk svo Everton í heimsókn og vann sterkan 2:0-sigur á lærisveinum Franks Lampards.
Markalaust var í leikhléi en Stuart Armstrong skoraði snemma í þeim síðari áður en Shane Long innsiglaði sigurinn seint í leiknum.