Liverpool vann góðan 3:1-sigur á sprækum nýliðum Norwich City þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Öll fjögur mörk leiksins komu í síðari hálfleik og náði Norwich forystunni snemma í honum.
Þrátt fyrir mikla yfirburði tókst Liverpool ekki að skora í fyrri hálfleik. Besta færi hálfleiksins fékk Kostas Tsimikas strax á fimmtu mínútu leiksins.
Mohamed Salah fór þá vel með boltann, gaf fyrir frá hægri á Tsimikas sem var einn og yfirgefinn við markteiginn á fjærstöng en á einhvern illskiljanlegan hátt fór skot hans yfir markið af örstuttu færi.
Teemu Pukki komst næst því að skora fyrir Norwich þegar hann slapp einn í gegn eftir stundarfjórðungs leiks en innanfótarskot hans fór framhjá markinu.
Undir blálok hálfleiksins var Alex Oxlade-Chamberlain kominn í kjörstöðu í D-boganum en varnarmaður Norwich náði að kasta sér fyrir fast skotið á ögurstundu.
Markalaust var því í hálfleik.
Snemma í síðari hálfleik, á 48. mínútu, tóku gestirnir í Norwich forystuna. Milot Rashica fékk þá boltann frá Josh Sargent í grennd við vítateiginn, tók eina gabbhreyfingu, þrumaði að marki og boltinn fór af Joel Matip þaðan sem hann breytti alveg um stefnu og hafnaði í fjærhorninu.
Eftir að hafa verið með mikla yfirburði í fyrri hálfleik virtust heimamenn slegnir út af laginu og áttu í erfiðleikum með að skapa sér góð færi, sem þeir gerðu ótt og títt í þeim fyrri.
Eftir að hafa gert tvöfalda breytingu á 62. mínútu hresstist lið Liverpool við svo um munaði við hana. Aðeins tveimur mínútum síðar var Liverpool nefnilega búið að jafna metin.
Jordan Henderson átti þá góða sendingu fram á Tsimikas sem skallaði fyrir markið þar sem Sadio Mané gerði sér lítið fyrir og skoraði með glæsilegri bakfallsspyrnu. Fór hún nokkurn veginn beint á Angus Gunn í markinu en boltinn hafnaði engu að síður í netinu.
Aðeins þremur mínútu síðar, var Liverpool skyndilega búið að ná forystunni. Eftir skyndisókn Norwich barst boltinn í hendur Alisson.
Hann var fljótur að hugsa og þrumaði boltanum fram á Salah sem tók laglega við honum, var sloppinn einn í gegn, lék á Gunn og laumaði svo boltanum í nærhornið framhjá tveimur leikmönnum Norwich.
Eftir þessar afdrifaríku mínútur var Liverpool búið að finna fjölina svo um munaði og fengu nokkur frábær tækifæri til þess að bæta við. Í eitt skiptið tókst það.
Á 81. mínútu átti Henderson frábæra stungusendingu inn á Luis Díaz sem var mættur í mjög gott hlaup, hann lagði boltann vel fyrir sig og vippaði boltanum með vinstri fæti afar snyrtilega framhjá Gunn og hafnaði boltinn í bláhorninu.
Var þetta fyrsta mark Kólumbíumannsins fyrir Liverpool eftir að hann kom frá Porto í lok janúar.
Staðan orðin 3:1 og reyndust það lokatölur. Vendipunkturinn kom þegar Thiago og Divock Origi komu inn á fyrir Alex Oxlade-Chamberlain og Naby Keita örskömmu áður en Liverpool jafnaði metin.
Þá sérstaklega reyndist innkoma Thiago mikilvæg þar sem Liverpool tók yfir miðjuna og náði þannig fullkominni stjórn á leiknum að nýju.